,,Þetta var besta gjöfin sem ég gat hugsað mér. Ég er ennþá að jafna mig eftir símtalið í fyrradag þar sem ég fékk að vita að þetta væri í höfn,“ sagði knattspyrnumaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson við Morgunblaðið í gær en hann mun á næstu dögum skrifa undir þriggja ára samning við enska stórliðið Liverpool.
Liverpool komst að samkomulagi við danska úrvalsdeildarliðið AGF um kaupin á íslenska unglingalandsliðsmanninum en Guðlaugur, sem er 17 ára gamall, hefur verið í herbúðum AGF í eitt og hálft ár og á dögunum tilkynnti félagið að hann hefði verið færður upp í aðalliðið og átti að hefja æfingar með því eftir helgina.