Guðjón Þórðarson knattspyrnustjóri Crewe var ánægður með strákana sína eftir leikinn við Millwall í ensku bikarkeppninni í dag. Liðin skildi jöfn, 2:2, og mætast þau að nýju á heimavelli Crewe þann 13. þessa mánaðar.
,,Ég var ánægður með frammistöðu liðsins og sérstaklega fannst mér hugarfarið og baráttan góð hjá þeim í seinni hálfleik eftir að hafa fengið á sig tvö mörk á skömmum tíma undir lok fyrri hálfleiksins. Þetta voru góð úrslit og ungu strákarnir stóðu sig sérlega vel. Markvörður okkar hefði getað gert betur í báðum mörkunum sem við fengum á okkur,“ segir Guðjón á vef Crewe en hann var að stýra liðinu í fyrsta sinn.
,,Við eigum í vændum annan erfiðan leik á móti Millwall,“ sagði Guðjón en hans menn sitja á botni ensku 2. deildarinnar en Millwall er í þriðja sætinu. Guðjón stjórnar Crewe í fyrsta deildarleiknum á þriðjudaginn en þá tekur Crewe á móti Bristol Rovers sem er í 16. sæti.