Nigel Clough hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri enska 1. deildarliðsins Derby County og tekur hann við af Paul Jewell sem sagði upp starfinu þann 28. desember.
Clough, sem er 42 ára gamall, hefur stýrt Burton Albion undanfarin tíu ár og skilur við liðið í toppsæti úrvalsdeildar utandeildaliðanna, eða fimmtu efstu deildarinnar í Englandi. Hann hefur jafnframt spilað með liðinu í þessi tíu ár og á yfir 300 leiki að baki með því.
Clough lék með Nottingham Forest í níu ár, frá 18 ára aldri, og skoraði 102 mörk í 317 deildaleikjum fyrir félagið. Hann spilaði með Liverpool í þrjú ár og Manchester City í tvö ár áður en hann gerðist spilandi knattspyrnustjóri Burton árið 1998.
Clough lék 14 A-landsleiki fyrir Englands hönd. Hann þekkir til í Derby því faðir hans var knattspyrnustjóri þar á sínum tíma og gerði félagið að enskum meisturum árið 1972.
Derby féll úr úrvalsdeildinni síðasta vor eftir eins árs dvöl og eftir ágætt gengi framan af í vetur hefur ekkert gengið undanfarnar vikur og liðið er nú í 18. sæti af 24 liðum í 1. deild. Hinsvegar er Derby komið í undanúrslit deildabikarsins og mætir þar meisturum Manchester United annað kvöld.
Það er svo fyrrum stjarna og fyrirliði Derby, og síðar knattspyrnustjóri félagsins, Roy McFarland, sem tekur við af Clough og stýrir liði Burton Albion út þetta tímabil. McFarland lék undir stjórn Brians Cloughs, föðurs Nigels, í meistaraliði Derby árið 1972 og varð aftur meistari með liðinu 1975.