Tíu ensk félög tæknilega gjaldþrota

Arsenal er á toppnum hjá Equifax.
Arsenal er á toppnum hjá Equifax. Reuters

Samkvæmt skýrslu ráðgjafafyrirtækisins Equifax eru tíu af tuttugu félögum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu tæknilega gjaldþrota, sem þýðir að ef allir lánardrottnar sæktu að þeim í einu gætu þau ekki greitt skuldir sínar. Íslendingafélagið West Ham er ekki eitt þeirra þrátt fyrir ítrekaðar fregnir af erfiðri fjárhagsstöðu á þeim bænum.

„Eins og flest fyrirtæki í Bretlandi eiga knattspyrnufélögin okkar erfitt ár fyrir höndum. Knattspyrnan fær mikið fjármagn frá ríkum einstaklingum en ef kreppir snögglega að geta þessir einstaklingar lent í erfiðleikum og það myndi hafa slæm áhrif á félögin. Þau sleppa ekki við kreppuna ef fjárfestar draga sig í hlé," sagði Neil Munro, stjórnarmaður Equifax.

Félagið hefur sett upp stigatöflu fyrir deildina sem byggist á nákvæmum útreikningum á fjárhagsstöðu þeirra. Arsenal og Manchester United tróna á toppnum en Hull situr á botninum. West Ham er í áttunda sæti af þeim níu félögum sem sleppa fyrir ofan "fallstrikið" en tíu félög fyrir neðan það teljast tæknilega gjaldþrota. Eitt félag, Portsmouth, er ekki með í útreikningunum þar sem Equifax hefur ekki aðgang að upplýsingum um stöðu mála þar.

Tafla Equifax lítur þannig út, mest er hægt að fá 100 stig:

98 Arsenal
93 Manchester United
71 WBA
65 Tottenham
43 Blackburn
40 Manchester City
37 Sunderland
37 West Ham
26 Liverpool
----------------------
18 Everton
17 Stoke City
10 Chelsea
7 Middlesbrough
5 Newcastle
5 Bolton
2 Aston Villa
2 Wigan
2 Fulham
1 Hull
*0 Portsmouth er ekki með í uppgjörinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert