Derby með frækinn sigur á Man.Utd

Steve Davies hjá Derby hefur betur í skallaeinvígi gegn Anderson …
Steve Davies hjá Derby hefur betur í skallaeinvígi gegn Anderson í leiknum í kvöld. Reuters

Derby County vann óvæntan sigur á Englandsmeisturum Manchester United, 1:0, í fyrri leik liðanna í undanúrslitum enska deildabikarsins í knattspyrnu á Pride Park í kvöld.

Liðin mætast aftur á Old Trafford þann 20. janúar en liðið sem sigrar samanlagt leikur til úrslita við Tottenham eða Burnley á Wembley síðar í vetur.

Bein textalýsing.

Derby fékk mun hættulegri færi framan af leiknum og náði forystunni nokkuð verðskuldað á 30. mínútu. Kris Commons fékk boltann rúma 25 metra frá marki og skoraði með stórglæsilegu skoti, alveg útvið stöng, 1:0.

Þannig var staðan þegar flautað var til leikhlés og meistararnir höfðu þá sjaldan náð að ógna marki 1. deildarliðsins að ráði.

Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United brást við daufum leik sinna manna með því að setja stjörnurnar Cristiano Ronaldo og Wayne Rooney inná sem varamenn á 63. mínútu. Það dugði ekki til, Ronaldo var einu sinni nærri því að skora úr aukaspyrnu en annars voru leikmenn Derby líklegri til að bæta við mörkum en United að jafna metin.

Lið Derby: Roy Carroll - Paul Connolly, Andy Todd, Lewin Nyatanga, Mohammed Camara - Mile Sterjovski, Paul Green, Miles Addison, Kris Commons - Rob Hulse, Steve Davies.
Varamenn: Stephen Bywater, Robbie Savage, Gary Teale, Nancer Barazite, Liam Dickinson, Darren Powell, Seb Hines.

Lið Man.Utd: Tomasz Kuszczak - Rafael da Silva, Nemanja Vidic, Jonny Evans, John O'Shea - Anderson, Paul Scholes, Darron Gibson, Nani - Carlos Tévez, Danny Welbeck.
Varamenn: Ben Amos, Cristiano Ronaldo, Wayne Rooney, Ryan Giggs, Michael Carrick, Darren Fletcher, Rodrigo Possebon.

Derby er í 18. sæti 1. deildar en heims-, Evrópu- og Englandsmeistarar Manchester United eru í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar.

Nigel Clough var kynntur til sögunnar sem nýr knattspyrnustjóri Derby …
Nigel Clough var kynntur til sögunnar sem nýr knattspyrnustjóri Derby fyrir leik og veifar hér til áhorfenda. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert