Fær Defoe ekki að fara til Tottenham?

Defoe í búningi Portsmouth. Ekki er víst hvort hann fái …
Defoe í búningi Portsmouth. Ekki er víst hvort hann fái að klæðast búningi Tottenham í bráð. Reuters

Óvænt staða er komin upp í félagsskiptum Jermain Defoe til Tottenham frá Portsmouth, en Lundúnaliðið kynnti leikmanninn fyrir áhorfendum í bikarleiknum á þriðjudag. Hinsvegar á eftir að ná samkomulagi um kaupverð, auk þess sem móðir Defoe gæti ógilt félagsskiptin.

Kaupverð hefur enn ekki verið ákveðið, en Portsmouth skuldar Tottenham ennþá vegna kaupa þeirra á leikmanninum fyrir ári síðan.

Í reglum enska knattspyrnusambandsins segir auk þess.

„Félag sem færir eða hættir við skráningu leikmanns má ekki sækja um skráningu sama leikmanns innan árs, nema með skriflegu leyfi stjórnar knattspyrnusambandsins.“

Innan við ár er síðan Tottenham seldi Defoe til Portsmouth og því á reglan við um hann, þar sem leikmaðurinn var fyrst lánaður til Portsmouth og ekki skráður leikmaður liðsins fyrr en í maí, þegar kaupin áttu sér stað.

Aðeins eitt fordæmi er fyrir undanþágu á reglunni, er Chris Powell gekk aftur til liðs við Charlton á sínum tíma, en hann var þá að vísu án liðs, og fékk því að ganga til liðs við sitt gamla félag.

Annar angi á vandkvæðunum í kringum Defoe er sú staðreynd, að verið er að skoða hvort móðir Defoe hafi leikið stórt hlutverk í félagsskiptum sonar síns til Tottenham, en til þess hefur hún ekki viðeigandi leyfi.

Defoe rak umboðsmann sinn, Sky Andrew, sem nú hefur höfðað mál gegn leikmanninum fyrir brot á samningi, þar sem móðir Defoe kom í hans stað, án þess að vera með tilskilin leyfi.

Og til að flækja málið enn frekar, ku Defoe hafa krafið Portsmouth um greiðslu 700.000 punda „tryggðargreiðslu“, fyrir það eitt að hafa ekki átt frumkvæðið að fara til Tottenham aftur.

Því verður gaman að sjá hvort Defoe, sem hefur hafið æfingar með Tottenham, fái í raun að spila fyrir félagið að nýju.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert