Hermann Hreiðarsson á leið til Reading

Hermann Hreiðarsson er á leiðinni til Reading.
Hermann Hreiðarsson er á leiðinni til Reading. Reuters

Hermann Hreiðarsson, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, er á leið til enska 1. deildarliðsins Reading frá bikarmeisturum Portsmouth, en samkvæmt heimildum mbl.is verður hann kynntur formlega til sögunnar hjá félaginu á mánudaginn.

Hermann verður þar með fjórði Íslendingurinn hjá félaginu en þar eru fyrir þeir Ívar Ingimarsson, Brynjar Björn Gunnarsson og Gylfi Þór Sigurðsson.

Hjá Reading hittir Hermann ennfremur fyrir knattspyrnustjórann Steve Coppell sem fékk hann til liðs við Crystal Palace frá ÍBV sumarið 1997, eða fyrir hálfu tólfta ári.

Hermann hefur fá tækifæri fengið með Portsmouth á þessu keppnistímabili og það hefur legið fyrir undanfarnar vikur að hann myndi yfirgefa félagið í þessum mánuði.

Reading féll úr úrvalsdeildinni í fyrra eftir tveggja ára dvöl en er nú í öðru sæti 1. deildar og þykir líklegt til að komast strax upp á ný. Liðið á þó í harðri baráttu á toppnum við Wolves og Birmingham.

Hermann hefur leikið með sex liðum í Englandi, Crystal Palace, Brentford, Wimbledon, Ipswich, Charlton og Portsmouth. Hann hefur leikið 297 leiki í ensku úrvalsdeildinni, fleiri en nokkur annar íslenskur leikmaður, og samtals 440 deildaleiki á ferlinum, þar af 66 með ÍBV á sínum tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert