Rooney: Chelsea hefur ekki gleymt Moskvu

Wayne Rooney bíður spenntur eins og fleiri eftir leiknum við …
Wayne Rooney bíður spenntur eins og fleiri eftir leiknum við Chelsea í dag. Reuters

Manchester United og Chelsea mætast í sannkölluðum stórleik í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu klukkan 16 í dag, á Old Trafford. Wayne Rooney, enski landsliðsmaðurinn hjá United, segir að leikmenn Chelsea hafi enn ekki jafnað sig á því að hafa tapað í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik liðanna í Meistaradeild Evrópu í Moskvu síðasta vor.

„Það er erfitt fyrir hvaða lið sem er að tapa úrslitaleik í Meistaradeild Evrópu en sérstaklega þegar það er gegn einum sínum stærsta keppinauti," sagði Rooney við tímarit félagsins, United Review.

„Næsti leikur gegn sama liði verður alltaf sérstakur og þegar við mættum þeim í september fann ég að úrslitaleikurinn sat í leikmönnum Chelsea. Ég er sannfærður um að svo verður einnig í þessum leik og veit að stuðningsmenn okkkar munu gera allt til að minna þá á Moskvu," sagði Rooney.

„Það er alltaf skemmtilegast að mæta bestu liðunum. Það hefur verið frábær barátta milli þessara tveggja liða undanfarin ár og ávallt geysilega mikið í húfi þegar þau mætast. Þetta er gífurlega stór leikur fyrir okkur því ef við sigrum, verðum við aðeins stigi á eftir Chelsea," sagði Rooney.

Eftir að Liverpool gerði jafntefli við Stoke er Manchester United það lið sem hefur tapað fæstum stigum í deildinni í vetur. United er með 38 stig og hefur aðeins leikið 18 leiki. Liverpool er með 46 stig eftir 21 leik og Chelsea er með 42 stig eftir 20 leiki. Aston Villa er með 41 stig eftir 21 leik. Vinni United leikina þrjá sem liðið á inni, færi það stigi uppfyrir Liverpool.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert