Manchester United vann glæsilegan sigur á Chelsea, 3:0, í uppgjöri tveggja af stóru liðunum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Old Trafford í dag. United er þar með í þriðja sætinu, stigi á eftir Chelsea og fimm stigum á eftir Liverpool, en á tvo leiki til góða og stendur því vel að vígi.
Nemanja Vidic skoraði í lok fyrri hálfleiks og þeir Wayne Rooney og Dimitar Berbatov bættu við mörkum í síðari hálfleiknum. Liverpool er með 46 stig, Chelsea 42, Manchester United 41 og Aston Villa 41 stig. Öll eftir 21 leik nema United sem hefur aðeins spilað 19 leilki.
Bein textalýsing frá Old Trafford.
Frank Lampard miðjumaður Chelsea fékk gula spjaldið strax á 4. mínútu fyrir að brjóta illa á Cristiano Ronaldo. José Bosingwa hjá Chelsea fékk gula spjaldið fyrir að brjóta á Wayne Rooney á 27. mínútu.
Á 28. mínútu lenti Portúgölunum Ricardo Carvalho hjá Chelsea og Cristiano Ronaldo hjá United saman í vítateig Chelsea. Carvalho virtist brjóta á Ronaldo en dæmt var á þann síðarnefnda og báðir fengu að líta gula spjaldið.
Í uppbótartíma fyrri hálfleiks dró heldur betur til tíðinda. Cristiano Ronaldo skallaði boltann í mark Chelsea eftir hornspyrnu frá Ryan Giggs en markið var dæmt var þar sem hornspyrnan var ólöglega framkvæmd. Hún var endurtekin, Giggs sendi boltann fyrir markið og við stöngina fjær var miðvörðurinn Nemanja Vidic mættur og skoraði með skalla, 1:0.
Á 63. mínútu kom United sér í enn betri stöðu. Patrice Evra átti þá fína fyrirgjöf frá vinstri og Wayne Rooney skoraði með viðstöðulausu skoti af markteig, 2:0.
Dimitar Berbatov gulltryggði sigur United á 86. mínútu þegar hann þrumaði boltanum viðstöðulaust í netið af markteig eftir aukaspyrnu Ronaldos frá vinstri, 3:0.
Lið Man.Utd: Edwin van der Sar - Gary Neville, Nemanja Vidic, Jonny Evans, Patrice Evra - Cristiano Ronaldo, Darren Fletcher, Ryan Giggs, Park Ji-sung - Dimitar Berbatov, Wayne Rooney.
Varamenn: Tomasz Kuszczak, Anderson, Michael Carrick, Paul Scholes, Danny Welbek, John O'Shea, Carlos Tévez.
Lið Chelsea: Petr Cech - José Bosingwa, Ricardo Carvalho, John Terry, Ashley Cole - Mikel John Obi, Joe Cole, Deco, Frank Lampard, Michael Ballack - Didier Drogba.
Varamenn: Carlo Cudicini, Branislav Ivanovic, Franco Di Santo, Paulo Ferreira, Salomon Kalou, Juliano Belletti, Nicolas Anelka.