Harry Redknapp, stjóri Tottenham, varð alveg brjálaður út í sína leikmenn eftir tapleikinn gegn Wigan í gær. Sagðist hann meðal annars þurfa á alvöru karlmönnum að halda.
„Við erum í fallbaráttu. Við þurfum alvöru karlmenn og alvöru persónuleika sem vilja hjálpa okkur út úr vandræðunum. Við erum með nokkra, en ekki nógu marga. Ég myndi treysta þeim Ledley King, Jonathan Woodgate, Michael Dawson, Dider Zokora og Jamie O´Hara fyrir lífi mínu. En við erum með vissa tegund af leikmönnum í liðinu, og einnig á bekknum. Og leikmennirnir komu okkur í þessi fallbaráttuvandræði og það er þeirra að bjarga okkur út úr þeim,“ sagði Redknapp eftir leikinn, sem tapaðist undir blá lokin.
Meðal leikmannana sem Redknapp er sagður vilja losna við, eru David Bentley og Jermaine Jenas, en hann var sviptur varafyrirliðastöðunni fyrir leikinn gegn Wigan, auk þess sem hann var settur á bekkinn.