Ryan Giggs, hinn þrautreyndi knattspyrnumaður hjá Manchester United, vill alls ekki útiloka þann möguleika að hann endi ferilinn hjá sínu heimaliði, Cardiff City í Wales, sem nú er í baráttu um sæti í ensku úrvalsdeildinni.
„Ég fylgist alltaf með úrslitunum hjá Cardiff City því liðið er frá mínum heimabæ. Það væri gaman ef þeir kæmust í úrvalsdeildina. Ég hef oft verið spurður að því hvort ég myndi spila með mínu heimaliði en ég veit ekki hvað framtíðin býr í skauti sínu. Samningur minn rennur út í maí svo við skulum sjá hvað setur. Sem stendur hefur ekkert verið rætt um framlengingu á honum," sagði Giggs við blaðið South Wales Echo.
Peter Ridsdale, stjórnarformaður Cardiff, sagði við blaðið að þessar vangaveltur væru viðurkenning fyrir félagið. „Sú staðreynd að fólk talar um það í alvöru að við gætum samið við leikmann á borð við Ryan Giggs sýnir best hve stór skref Cardiff City hefur tekið á síðustu árum," sagði Ridsdale en lið hans er nú í fimmta sæti 1. deildar og lék til úrslita í ensku bikarkeppninni síðasta vor.
Ryan Giggs, sem er 35 ára, hefur leikið allan sinn feril með Manchester United og er leikjahæsti leikmaðurinn í sögu félagsins. Hann er jafnframt eini knattspyrnumaðurinn í sögunni sem hefur orðið 10 sinnum enskur meistari en þeim áfanga náði hann með Manchester United síðasta vor.