Tony Adams, knattspyrnustjóri Portsmouth, virðist harðákveðinn í að leyfa Hermanni Hreiðarssyni landsliðsfyrirliða ekki að fara til Reading í þessum mánuði eins og til stóð, og staðfesti það við Sky Sports í morgun.
Hermann lék síðustu fimm mínúturnar í gærkvöld þegar Portsmouth vann Bristol City, 2:0, á útivelli og tryggði sér sæti í 4. umferð bikarkeppninnar.
„Hermann kom inná og ég þarf á honum að halda í baráttunni ásamt öllum öðrum, og hann fer því hvergi," sagði Tony Adams, og fullyrti að fleiri leikmenn myndu ekki fara frá félaginu í þessum mánuði.
Portsmouth seldi Jermain Defoe til Tottenham og Lassana Diarra til Real Madrid en Adams vill að fimm nýir leikmenn verði keyptir áður en mánuðurinn er úti.