Glenn Roeder rekinn frá Norwich

Glenn Roeder er farinn frá Norwich.
Glenn Roeder er farinn frá Norwich. Reuters

Glenn Roeder var í dag sagt upp starfi sínu sem knattspyrnustjóra enska 1. deildarliðsins Norwich City en hann hafði stýrt því í fimmtán mánuði.

Roeder hætti störfum hjá Newcastle í maí 2007 og tók síðan við liði Norwich í október. Hann reif liðið upp af botni 1. deildarinnar og skilaði því í örugga höfn. Í vetur hefur liðið hinsvegar sogast niður í fallbaráttuna á ný og er í fjórða neðsta sætinu, með betri markatölu en Southampton sem situr í fallsæti deildarinnar.

Eftir ósigur gegn Charlton, neðsta liði 1. deildar, 0:1, á heimavelli í bikarnum í gærkvöld stóðu stuðningsmenn Norwich fyrir mótmælum og margir kröfðust þess að Roeder segði af sér.

Roger Munby stjórnarformaður Norwich sagði á vef félagsins í dag að ekki hefði verið ákveðið hver myndi stýra liðinu gegn Barnsley í 1. deildinni næsta laugardag. Tveir aðstoðarmenn Roeders, Paul Stephenson og Adam Sadler, hurfu á braut ásamt honum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert