Svo virðist sem að félagsskipti Kaká frá AC Milan til Manchester City séu ennþá möguleg, þó svo að leikmaðurinn hafi sjálfur sagst vilja vera áfram hjá Mílanó-liðinu.
Samkvæmt heimildum arabianbusiness.com sem birtu fyrst fréttir af yfirtökunni á Manchester City, hafa eigendur liðsins dregið tilboð sitt til baka og einbeita sér núna að öðrum leikmanni, sem ekki er tiltekinn.
Hinsvegar segir Mark Hughes, að viðræður séu enn í gangi.
„Viðræður eiga sér enn stað. Ég hef séð fréttirnar um hið gagnstæða, en þeir aðilar eru ekki í forsvari fyrir félagið eða eigendurna. Það er ómögulegt að segja hvort viðræðurnar verði okkur í hag, en við munum láta alla vita um leið og eitthvað er að frétta,“ sagði Hughes fyrir stundu.
Sjálfur hefur Kaká sagt:
„Þeir (City) geta gert Milan tilboð og það veltur á Milan hvort þeir taki því. Ég hef þegar sagt nei við öðrum tilboðum og þetta er ekki líklegt til þess að fá mig til að fara heldur. Ef einn daginn, Milan ákveður að selja mig, þá er það allt annar handleggur. En ef ég færi frá Milan yrði það ekki vegna peningana.“
Umboðsmenn Kaká segja málinu þó ekki lokið, þeir vilji fá að tala við Manchester City um kaup og kjör, en til þess þarf AC Milan fyrst að samþykkja tilboð í leikmanninn, sem þeir gætu átt erfitt með að neita, líkt og í gær, enda um tæpar 100 milljónir punda að ræða, eða hátt í 20 milljarða íslenskra króna.
Ekki þarf að koma á óvart að umboðsmenn Kaká séu spenntari fyrir félagsskiptunum en leikmaðurinn sjálfur, enda er venjan að umboðslaun slíkrar sölu séu um 10-15%, sem í þessu tilviki myndi þýða um 10-15 milljónir punda, sem yrðu þá hæstu umboðslaun sögunnar í knattspyrnu.
Nú hefur Manchester City reynt að lokka Kaká til liðsins með því að lofa honum að þeir kaupi einnig Dida, sem er góður vinur og landi Kaká, eða markvörðinn Buffon hjá Juventus, sem fyrir er dýrasti markmaður heims, en jafnframt talinn sá besti. Kaká hefur sagt að hann vilji aðeins vera hjá liði með metnað og hann vilji spila í Meistaradeildinni, nokkuð sem City-liðið virðist ekki líklegt með að gera næstu árin, ef marka má spilamennsku þess nú. En ekki vantar þó metnaðinn, þó svo kappið virðist meira en forsjáin, þegar um slíkar upphæðir ræðir.
Einn helsti ráðgjafi Kaká, faðir hans, er á leiðinni til Mílanó borgar, til þess að vera syni sínum innan handar, en ekki er talið að hann muni láta græðgi skerða dómgreind sína, enda sterkefnaður fyrir, líkt og sonur sinn.
Margir eru á því að slíkar upphæðir í knattspyrnuheiminum séu íþróttinni skaðlegar. Einn þeirra er eigandi Wigan liðsins, Dave Whelan.
„Ef einhverjir olíu-arabar borga 90+ milljónir punda fyrir einn leikmann, er það algerlega klikkað. Ef City heldur þessu áfram held ég að íþróttin muni líða fyrir það,“ sagði Whelan.