Liverpool mistókst að velta Manchester United á ný af toppi ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu þegar liðið gerði jafntefli, 1:1, við Everton á Anfield í kvöld. Tim Cahill jafnaði metin fyrir Everton þremur mínútum fyrir leikslok.
Manchester United og Liverpool eru þá bæði með 47 stig en United er með betri markatölu og á auk þess leik til góða. Everton er sem fyrr í 6. sæti deildarinnar, nú með 36 stig.
Litlu munaði að Everton næði forystunni á 26. mínútu en þá varði José Reina í marki Liverpool skalla frá Tim Cahill á glæsilegan hátt, útvið stöng.
Fernando Torres fékk enn betra færi fyrir Liverpool á 28. mínútu þegar hann komst innfyrir vörn Everton og skaut í utanverða stöngina af stuttu færi. Staðan í hálfleik var 0:0.
Everton slapp með skrekkinn á 56. mínútu þegar Tim Howard vann naumlega frá Steven Gerrard og Leighton Baines tókst með harðfylgi að koma í veg fyrir að Sami Hyypiä sendi boltann í tómt markið í kjölfarið.
Liverpool náði forystunni á 68. mínútu. Eftir snögga sókn fékk Steven Gerrard boltann um 25 metra frá marki og skoraði með þrumuskoti í vinstra markhornið niðri, 1:0.
Leikmenn Everton gáfust ekki upp og á 87. mínútu jafnaði Tim Cahill með hörkuskalla eftir aukaspyrnu, 1:1.
Byrjunarliðin voru þannig skipuð:
Liverpool: Reina, Carragher, Hyypiä, Skrtel, Aurelio, Kuyt, Gerrard, Alonso, Riera, Keane, Torres.
Varamenn: Cavalieri, Dossena, Benayoun, Arbeloa, Babel, Mascherano, Leiva Lucas.
Everton: Howard, Hibbert, Lescott, Jagielka, Baines, Osman, Arteta, Neville, Pienaar, Cahill, Anichebe.
Varamenn: Nash, Van der Meyde, Castillo, Rodwell, Jutkiewicz, Gosling, Kissock.