Mikil spenna er í bítlaborginni Liverpool fyrir borgarslag Liverpool og Everton í úrvalsdeildinni sem eigast við á Anfield í kvöld. Þetta er 180. rimma liðanna í deildarkeppninni og með sigri endurheimtir Liverpool toppsætið í deildinni en liðið er stigi á eftir Englandsmeisturum Manchester United.
Spánverjarnir Fernando Torres og Xabi Alonso eru klárir í slaginn með Liverpool en hjá Everton er skarð fyrir skildi að miðjumaðurinn sterki Marouane Fellaini tekur út leikbann og þá eru þeir Yakubu og Louis Saha fjarri góðu gamni vegna meiðsla.
Liverpool er ósigrað í 10 leikjum í röð í úrvalsdeildinni og hefur ekki tapað deildarleik á heimavelli í síðustu 21 leik. Everton hefur verið á góðu skriði en liðið hefur unnið fjóra leiki í röð en liðið er í sjötta sæti deildarinnar.
Rafael Benítez:
,,Everton er í fínu formi þessa dagana. Liðið hefur leikið vel, er á sigurbraut, hefur haldið marki sínu hreinu í síðustu leikjum svo við eigum í vændum erfiðan leik gegn þeim,“ segir Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool.
David Moyes:
,,Við höfum leikið vel í síðustu viðureignum okkar við Liverpool. Okkur hefur ekki tekist að spila okkar leik en ég er rólegur því leikmenn mínir hafa sýnt frábæra frammistöðu í undanförnum leikjum og við förum í þennan leik með gott sjálfstraust,“ segir Moyes.
Líkleg byrjunarlið:
Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Skrtel, Aurelio, Kuyt, Alonso, Mascherano, Riera, Gerrard, Torres.
Everton: Howard, Hibbert, Jagielka, Yobo, Lescott, Arteta, Neville, Osman, Pienaar, Baines, Cahill.