Nigel Clough, nýráðinn knattspyrnustjóri Derby County, er bjartsýnn á að 1. deildarliðið nái að halda sínum hlut á Old Trafford í kvöld og slá Evrópumeistara Manchester United út í undanúrslitum deildabikarsins.
Derby vann fyrri leik liðanna óvænt, 1:0, á Pride Park en liðið sem sigrar samanlagt leikur til úrslita í keppninni á Wembley, gegn Tottenham eða Burnley.
„Það er langt síðan Derby hefur leikið úrslitaleik á Wembley og það er okkar hvatning. Við getum vel náð hagstæðum úrslitum á Old Trafford, hvort sem það er að halda jöfnu, eða halda forystu," sagði Clough, sem fyrir þremur árum náði 0:0 jafntefli gegn Manchester United sem knattspyrnustjóri utandeildaliðsins Burton Albion, en liðin mættust þá í ensku bikarkeppninni.
Clough stýrði Derby í fyrsta skipti gegn QPR um síðustu helgi og lið hans lá á heimavelli, 0:2. Það er nú skammt frá fallsvæði 1. deildarinnar eftir slæmt gengi undanfarnar vikur, þar sem sigurinn á Manchester United stendur uppúr.
„Strákarnir vita að þeir sýndu ekki sínar réttu hliðar á laugardaginn en vonandi náði liðið botninum í þeim leik, og byrjar nú að vinna sig uppávið á ný. Það vantaði neista í liðið, við fengum á okkur ódýr mörk, og ég hef eiginlega verið steini lostinn yfir því undanfarna tvo sólarhringa," sagði Nigel Clough við BBC í dag en faðir hans, Brian Clough, gerði Derby að ensku meisturum árið 1972.
„Við þurfum ekki sigur, jafntefli er nóg, og svo bíður okkur annar stórleikur í bikarnum á föstudaginn. Það er ljóst að við spilum ekki með þriggja manna framlínu, en það þýðir heldur ekki að ætla að verjast í 90 mínútur á Old Trafford. Við munum nýta öll þau sóknarfæri sem gefast í leiknum," sagði Clough en lið hans mætir erkifjendunum og nágrönnunum í Nottingham Forest í 4. umferð ensku bikarkeppninnar á föstudagskvöldið.