Steven Gerrard fyrirliði Liverpool var í réttarsal í morgun og þar sagðist hann vera saklaus af öllum ákærum en honum var birt ákæra eftir að til slagsmála kom á næturklúbbi í Southport á Englandi þann 29. desember. 34 ára gamall plötusnúður á kránni var fluttur á sjúkrahús en hann meiddist í andliti og í kjölfarið voru Gerrard ásamt tveimur öðrum mönnum ákærðir.
Gerrard var á næturklúbbnum ásamt vinum sínum en þar voru þeir að fagna 5:1 sigri Liverpool á Newcastle fyrr um daginn þar sem Gerrard skoraði tvö mörk. Eftir að til átaka kom var Gerrard handtekinn ásamt fimm öðrum og voru þeir í haldi lögreglunnar í um 20 klukkustundir.
Gerrard gengur frjáls ferða sinna gegn tryggingu en hann á að mæta aftur í réttarsalinn þann 20. mars.