Meiðslalistinn hjá Manchester United lengdist enn þegar liðið bar sigurorð af Tottenham, 2:1, í ensku bikarkeppninni í knattspyrnu í dag og þá spilaði Cristiano Ronaldo þrátt fyrir veikindi.
Hinir ungu Fabio og Danny Welbeck komu inní liðið fyrir leikinn í dag og þurftu báðir að fara af velli vegna meiðsla, á kálfa og ökkla. Ronaldo þurfti læknisaðstoð í morgun en lék samt með.
„Við urðum að senda lækni til hans og ég hélt að hann ætti ekki möguleika á að spila. En hann var staðráðinn í að vera með og það er alltaf gott að hafa hann í liðinu," sagði Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United.
Lið hans mætir WBA á The Hawthorns á þriðjudagskvöldið.