Giggs boðinn nýr samningur

Ryan Giggs fær greinilega ekki að hætta í vor.
Ryan Giggs fær greinilega ekki að hætta í vor. Reuters

Ryan Giggs, hinum reynda leikmanni Manchester United, verður boðinn nýr samningur hjá félaginu og Alex Ferguson knattspyrnustjóri segir að hann hljóti að koma til greina þegar knattspyrnumaður ársins verði valinn í vor.

Giggs er 35 ára gamall og hefur látið að því liggja að hann kunni að leggja skóna á hilluna í vor en hefur líka  gefið í skyn að það gæti verið gaman að enda ferilinn í sínum heimabæ, Cardiff.

Ferguson er greinilega ekki á því og segir í viðtali við Sunday Mirror í dag: „Ryan verður að sjálfsögðu boðinn nýr samningur. Hann hefur verið frábær í vetur og virðist verða enn betri eftir því sem árin færast yfir. Hann gæti vel verið kjörinn knattspyrnumaður ársins og það væri við hæfi, ef tekið er mið af hans ferli. Hann er einn af þeim fáu sem aldur og meiðsli virðast ekkert bíta á," sagði Ferguson.

Giggs hefur verið í röðum Manchester United frá 14 ára aldri en hann kom til félagsins fyrir 22 árum, 1987. Hann er leikjahæsti leikmaðurinn í sögu Manchester United, sló met Bobbys Charltons síðasta vor, og er sá eini sem hefur skorað á hverju tímabil í úrvalsdeildinni, frá stofnun hennar árið 1992. Giggs er jafnframt sá eini í sögunni sem hefur orðið 10 sinnum enskur meistari, og varð fyrstur til að skora 12 ár í röð í Meistaradeild Evrópu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert