Hermann Hreiðarsson var útnefndur maður leiksins af sérstakri dómnefnd hjá félaginu eftir leik liðsins gegn Swansea í bikarnum um síðustu helgi en bikarmeistarar Portsmouth töpuðu á heimavelli fyrir fyrstudeildarliðinu, 2:0. Hermann kom inná í hálfleik og lék allan seinni hálfleikinn en staðan í leikhléi var 2:0.
Portsmouth tekur á móti Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni á Fratton Park í kvöld og gaf Tony Adams, knattspyrnustjóri Portsmouth, það sterklega til kynna í gær að Hermann yrði í byrjunarliðinu í þeim leik.
„Ég þarf að hafa leikmenn inni á vellinum sem eru tilbúnir í átök svo ég held að Hermann muni spila á móti Aston Villa. Ég þarf á sigurvegurum og baráttujöxlum að halda,“ sagði Adams við staðarblaðið í Portsmouth í gær.
Hermann hefur eins og ítrekað hefur komið fram óskað eftir því að verða leystur frá störfum hjá Portsmouth og á dögunum höfðu Portsmouth og Reading náð samkomulagi um félagaskipti en Adams kom í veg fyrir það á síðustu stundu og sagðist vilja halda Hermanni í röðum félagsins. gummih@mbl.is