Redknapp gefur Robbie Keane undir fótinn

Keane fagnar marki ásamt Gerrard.
Keane fagnar marki ásamt Gerrard. Reuters

Harry Redknapp, stjóri Tottenham, gæti bætt enn einum fyrrverandi Tottenham leikmanni við hóp sinn, en hann hefur nú lýst aðdáun sinni á hæfileikum Robbie Keane hjá Liverpool, en írski landsliðsmaðurinn hefur ekki verið á skotskónum á Anfield Road.

„Ég er mikill aðdáandi Robbie, bæði sem leikmanns og persónu. Það væri lygi að segja að ég vildi ekki fá hann hingað, en hann er leikmaður Liverpool svo sá kostur er ekki í boði,“ sagði Redknapp á blaðamannafundi. Hefur hann þar með gefið boltann á Keane, sem eflaust er ekki ánægður með að hafa þurft að verma tréverkið hjá Liverpool, þrátt fyrir markaþurrð, en hann var tekinn úr liðinu eftir að hann skoraði þrjú mörk í tveimur leikjum fyrir áramót.

Redknapp hefur verið duglegur við að fá „gamla“ Tottenham menn til liðs við sig, en fyrst keypti hann Jermain Defoe frá Portsmouth og svo Pascal Chimbonda frá Sunderland, en báðir höfðu aðeins verið í burtu frá Tottenham í sex mánuði.

Segja gárungar á Englandi, að það eina sem komi í veg fyrir að Redknapp kaupi Darren Anderton aftur til liðsins, sé sú staðreynd að leikmaðurinn sé búinn að leggja skóna á hilluna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka