Beckham á báðum áttum

Beckham í búningi Milan. Hugsanlega verður hann leikmaður þeirra á …
Beckham í búningi Milan. Hugsanlega verður hann leikmaður þeirra á næstu leiktíð einnig. Reuters

Enski knattspyrnumaðurinn David Beckham hefur gefið í skyn að hann muni hugsanlega ekki snúa til LA Galaxy frá AC Milan, hvar hann er í láni.

„Að spila hér er draumur hvers leikmanns, en þessi ákvörðun er ekki auðveld, þetta er eitthvað sem krefst tíma,“ sagði Beckham við Corriere della Sera. Tími er þó nokkuð sem Beckham hefur lítið af, því ef hann ætlar að ganga til liðs  við AC Milan, hefur hann aðeins frest til 2. febrúar, þegar félagsskiptaglugginn rennur út.

„Ég er með samning við Galaxy og ber ég virðingu fyrir því liði. En möguleikinn á að spila fyrir Milan er einstakt tækifæri. Ég vissi að þetta yrði gaman, en ekki svona gaman. Sannleikurinn er sá að Bandaríkjamennirnir eru að gera allt í þeirra valdi til að hefja MLS-deildina til vegs og virðingar. Deildin er ung og ég tel að hún þurfi minnst 10 ár til viðbótar til að ná markmiðum sínum. Og ég verð að viðurkenna, að þar sem ég hef spilað í Evrópu, að það getur verið pirrandi að spila í Bandaríkjunum í vissum leikjum. En stöku sinnum hef ég þó skemmt mér vel þar,“ sagði Beckham.

Samkvæmt klausu í lánssamningi Beckhams getur leikmaðurinn ekki framlengt lánssamningnum við AC Milan. Því þarf Milan að kaupa Beckham af LA Galaxy nú í félagsskiptaglugganum vilji þeir fá hann út tímabilið. Einnig kemur til greina að kaupa upp samning Beckham hjá Galaxy, en sá samningur er líklegast mun dýrari en raunvirði Beckham sem leikmanns og er talið að AC Milan bjóði ekki meira en 5 milljónir punda, geri þeir tilboð á annað borð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert