Hermann Hreiðarsson, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, náði þeim stóra áfanga á laugardaginn að leika sinn 300. leik í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, þegar Portsmouth mætti Fulham á Craven Cottage í London.
Hermann er langleikjahæstur Íslendinga í þessari sterkustu deild heims en Guðni Bergsson lék 202 leiki í efstu deild í Englandi með Bolton og Tottenham á sínum tíma.
Hermann hefur náð þessum 300 leikjum með fimm félögum á hálfu tólfta ári en Steve Coppell keypti hann til Crystal Palace frá ÍBV sumarið 1997.
*Hermann lék 30 leiki með Crystal Palace í deildinni 1997-98 og skoraði 2 mörk.
*Hermann lék 24 leiki með Wimbledon í deildinni 1999-2000 og skoraði eitt mark.
*Hermann lék 74 leiki með Ipswich í deildinni 2000-2002 og skoraði 2 mörk.
*Hermann lék 132 leiki með Charlton í deildinni 2003-2007 og skoraði 3 mörk.
*Hermann hefur frá 2007 leikið 40 leiki með Portsmouth í deildinni og skorað 3 mörk.
Þar fyrir utan hefur Hermann leikið 77 leiki í hinum þremur deildunum í Englandi. Hann lék 36 leiki í 1. deild með Crystal Palace, Wimbledon og Ipswich, 8 leiki í 2. deild með Brentford og 33 leiki í 3. deild með Brentford.
Nánar er fjallað um þennan áfanga Hermanns í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.