Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal fagnar mjög komu rússneska framherjans Andrei Arshavin en eftir japl, jaml og fuður undanfarnar vikur og mánuði gekk Rússinn loksins í raðir Lundúnaliðsins í fyrradag á lokadegi félagaskiptagluggans.
,,Andrei Arshavin er leikmaður sem ég hef haft mikið dálæti á í langan tíma. Hann er afar fjölhæfur leikmaður, hefur mikla reynslu og með honum koma mikil gæði inn í okkar hóp. Hann hefur verið áhrifamikill með Zenit og rússneska landsliðinu undanfarin ár og hann verður það vonandi hjá okkur líka,“ segir Wenger um nýjasta leikmanninn í herbúðum Arsenal.
Arshavin, sem er ekki gjaldgengur með Arsenal í Meistaradeildinni, segir draum sinn vera að rætast að ganga til liðs við Arsenal.
,,Arsenal er eitt af bestu liðum í heiminum. Í því er hópur af frábærum ungum leikmönnum og knattspyrnustjórinn er frábær,“ sagði Arshavin, sem mun þurfa einhvern tíma að komast í leikform þar sem deildarkeppninni í Rússlandi lauk í nóvember.
,,Ég hlakka mikið til að gera stuðningsmenn Arsenal ánægða og hjálpa liðinu að vinna titla. Ég er afar ánægður með að vera orðinn leikmaður Arsenal, ég átti mér þann draum.“