Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Englands- og Evrópumeistara Manchester United hefur staðfest að hann ætli að bjóða reynsluboltunum Ryan Giggs og Paul Scholes eins árs framlengingu á samningum sínum en þeir hafa átt ótrúlegri velgengni að fagna hjá Manchester-liðinu.
,,Scholes hefur reynst okkur frábær leikmaður og hann fær eins árs framlengingu. Sama er segja um Giggs. Honum stendur til boða að vera hjá okkur áfram. Giggs er stórkostlegur leikmaður. Hans líkamlega atgervi er hreint ótrúlegt og framlag hans til félagsins hefur verið magnað,“ segir Ferguson.
Scholes, sem verður 34 ára gamall á þessu ári, hefur leikið allan sinn feril með Manchester United. Hann lék sinn fyrsta leik með aðalliði félagsins árið 1994. Scholes hefur átta sinnum orðið Englandsmeistari með liðinu, þrisvar bikarmeistari, tvívegis Evrópumeistari auk fleiri titla.
Giggs verður 35 ára í nóvember. Hann lék sinn fyrsta leik með aðalliði United árið 1990 og í fyrra sló hann leikjamet Sir Bobby Charlton en hann lék 758 leiki með liðinu. Giggs státar af 10 Englandsmeistaratitlunum með United, hefur unnið bikarinn 4 sinnum, tvívegis hefur hann orðið Evrópumeistari, deildabikarmeistari tvígang og svona mætti lengi telja áfram.