Beckham í enska landsliðið á ný

David Beckham, til hægri, fagnar Kaká eftir jöfnunarmark, 1:1, gegn …
David Beckham, til hægri, fagnar Kaká eftir jöfnunarmark, 1:1, gegn Reggina í ítölsku A-deildinni í kvöld. Reuters

Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands í knattspyrnu, valdi David Beckham í hóp sinn á nýjan leik í kvöld þegar hann tilkynnti 23 leikmanna hóp fyrir vináttulandsleikinn gegn Spánverjum sem fram fer í Sevilla næsta miðvikudag. Beckham á þar með möguleika á að jafna met Bobbys Moores sem leikjahæsti útispilarinn með enska landsliðinu.

Moore heitinn, sem var fyrirliði enska landsliðsins þegar það varð heimsmeistari árið 1966, lék 108 landsleiki en Beckham er kominn með 107. Leikjametið sjálft á hinsvegar markvörðurinn Peter Shilton sem lék 125 landsleiki fyrir England.

Capello valdi Beckham ekki í hópinn fyrir vináttulandsleik gegn Þýskalandi í nóvember, af þeirri ástæðu að þá var hlé á amerísku MLS-deildinni þar sem Beckham lék með LA Galaxy. Hann hefur hinsvegar verið í láni hjá AC Milan á Ítalíu frá áramótum og gengið afar vel.

Capello valdi líka tvo nýliða í sinn hóp, Carlton Cole frá West Ham og James Milner frá Aston Villa. Þeir Wayne Rooney, Joe Cole, Michael Owen og Steven Gerrard eru fjarverandi vegna meiðsla. Hópurinn í heild er þannig skipaður:

Markverðir: Robert Green (West Ham), Joe Hart (Man City), David James (Portsmouth).

Varnarmenn: Wayne Bridge (Man City), Ashley Cole (Chelsea), Rio Ferdinand (Man Utd), Phil Jagielka (Everton), Gary Johnson (Portsmouth), John Terry (Chelsea), Matthew Upson (West Ham), Luke Young (Villa).

Miðjumenn: David Beckham (LA Galaxy), Garety Barry (Villa), Michael Carrick (Man Utd), Stewart Downing (Middlesbrough), Frank Lampard (Chelsea), James Milner (Villa), Shaun Wright-Phillips (Man City), Ashley Young (Villa).

Framherjar: Gabriel Agbonlahor (Villa), Carlton Cole (West Ham), Peter Crouch (Portsmouth), Emile Heskey (Villa).

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert