Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, er ekki hrifinn af því að Fernando Torres, sóknarmaður félagsins, eigi að leika með landsliði Spánar gegn Englandi þegar þjóðirnar mætast í vináttulandsleik næsta miðvikudag, í Sevilla.
Torres hefur misst nokkuð úr vegna meiðsla í vetur og er nýkominn af stað á ný. „Það er áhætta að láta hann spila þennan leik og það sjá allir sem vilja að hann er ekki kominn í fulla æfingu eftir að hafa tognað aftan í læri einu sinni enn. En það þýðir víst ekki að malda í móinn, við vitum að hann verður látinn spila, sama hvað við segjum," sagði Benítez á vef Liverpool og sagðist verða í sambandi við þjálfara og þrekþjálfara spænska liðsins.
„Þeir vita að það er mikið álag á þeim sem spila í Englandi og munu sjá um hann. Vandamálið er það að spænska liðinu gengur mjög vel um þessar mundir, og þeir vilja halda sínu striki, vera með alla sína leikmenn og halda uppi góðum liðsanda," sagði Benítez.