Kemst Liverpool aftur á toppinn?

Jamie Carragher og félagar í Liverpool leika í Portsmouth í …
Jamie Carragher og félagar í Liverpool leika í Portsmouth í dag. Reuters

Liverpool á möguleika á að komast á ný í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar í dag. Liðið sækir Portsmouth heim í síðasta leik dagsins en hann hefst á Fratton Park klukkan 17.30. Takist Liverpool að sigra verður liðið stigi á undan Manchester United, sem þá á hinsvegar tvo leiki til góða og leikur við West Ham á Upton Park á morgun.

Manchester United er með 53 stig og Liverpool 51 en síðan koma Chelsea og Aston Villa með 48 stig og þau eiga bæði leiki fyrir höndum í dag.

Fallbaráttan er ekki síður í sviðsljósinu en deildin hefur sennilega aldrei verið jafn óútreiknanleg og jöfn og nú og aðeins tvö stig skilja að neðstu sjö liðin. Það gæti því vel farið svo að þau þrjú lið sem sitja í fallsætum deildarinnar þegar flautað er til leikjanna í dag, Blackburn, Middlesbrough og WBA, verði öll komin úr fallsætum í leikslok.

Átta leikir fara fram í úrvalsdeildinni í dag og þeir eru þessir:

12.45 Manchester City - Middlesbrough
15.00 Blackburn - Aston Villa
15.00 Chelsea - Hull
15.00 Everton - Bolton
15.00 Sunderland - Stoke
15.00 WBA - Newcastle
15.00 Wigan - Fulham
17.30 Portsmouth - Liverpool

Á morgun leika síðan nágrannarnir Tottenham og Arsenal á White Hart Lane og West Ham tekur á móti Manchester United.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert