Liverpool á toppinn eftir magnaðan sigur

Peter Crouch, Fernando Torres og José Reina markvörður Liverpool í …
Peter Crouch, Fernando Torres og José Reina markvörður Liverpool í leikslok. Reuters

Hermann Hreiðarsson kom Portsmouth í 2:1 gegn Liverpool á 79. mínútu í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Það dugði ekki til, Dirk Kuyt og Fernando Torres skoruðu fyrir Liverpool í lokin, tryggðu liðinu góðan útisigur, 3:2, og það er nú á toppi deildarinnar, stigi á undan Manchester United.

Liverpool er með 54 stig en United er með 53 stig og á tvo leiki til góða og sækir West Ham heim á morgun.

Bein textalýsing frá Fratton Park.

Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik og fátt um góð marktækifæri.

Ryan Babel fékk algjört dauðafæri til að koma Liverpool yfir á 59. mínútu en hann hitti þá ekki boltann fyrir galopnu marki eftir sendingu frá Dirk Kuyt.

Það kom í bakið á Liverpool því á 62. mínútu skoraði David Nugent fyrir Portsmouth, 1:0, eftir sendingu frá Peter Crouch, fyrrum leikmanni Liverpool.

Liverpool jafnaði á 69. mínútu en liðið fékk þá óbeina aukaspyrnu rétt utan markteigs eftir að Crouch átti hræðilega sendingu til baka á David James markvörð, sem varð að handleika boltann. Xabi Alonso renndi boltanum á Fabio Aurelio sem þrumaði honum af fítonskrafti í netið, 1:1.

En á 79. mínútu var röðin komin að Eyjamanninum í liði Portsmouth, Hermanni Hreiðarssyni. Hann gerði sér lítið fyrir og skallaði boltann í mark Liverpool eftir aukaspyrnu frá hægri kanti, 2:1.

Liverpool náði að jafna á 85. mínútu þegar Fernando Torres komst að endamörkum hægra megin og renndi boltanum út þar sem Dirk Kuyt þrumaði honum uppundir þverslána, 2:2.

Þegar rúm mínúta var liðin af uppbótartíma komst Yossi Benayoun að endamörkum vinstra megin og lyfti boltanum á Fernando Torres sem skoraði með skalla, 2:3.

 Lið Liverpool: Reina, Carragher, Skrtel, Agger, Dossena, Arbeloa, Mascherano, Aurelio, Babel, Ngog, Benayoun.
Varamenn: Cavalieri, Hyypiä, Torres, Riera, Alonso, Kuyt, El Zhar.

Lið Portsmouth: James, Johnson, Campbell, Distin, Hermann, Basinas, Davis, Mullins, Belhadj, Crouch, Nugent.
Varamenn: Begovic, Lauren, Mvuemba, Pamarot, Kanu, Kranjcar, Gekas.

Hermann lék allan leikinn með Portsmouth sem er í 16. sæti deildarinnar með 24 stig, einu stigi frá fallsæti.

Dirk Kuyt fagnar eftir að hafa jafnað metin í 2:2.
Dirk Kuyt fagnar eftir að hafa jafnað metin í 2:2. Reuters
Glen Johnson hjá Portsmouth og David Ngog hjá Liverpool í …
Glen Johnson hjá Portsmouth og David Ngog hjá Liverpool í skallaeinvígi í leiknum í dag. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka