Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, sagði eftir sigurinn á West Ham í dag, 1:0 á Upton Park, að hann hefði verið að reyna að rifja upp hvenær Ryan Giggs skoraði síðast mark með hægri fæti.
Giggs skoraði sigurmarkið á glæsilegan hátt á 62. mínútu. Hann fékk boltann úti á vinstri kantinum og plataði tvo varnarmenn West Ham uppúr skónum með því að ógna til vinstri, á sinn hættulega fót, en fór til hægri í bæði skiptin, og skoraði síðan með óverjandi hægrifótarskoti í markhornið fjær.
„Ég reyndi að fletta upp í minninu og held að síðasta mark hans með hægri hafi komið í leik gegn Coventry fyrir 12 árum. Ryan er frábær fulltrúi fótboltans, og fullkomnasta fyrirmynd sem til er fyrir þá sem vilja helga sig íþróttinni," sagði Ferguson um hinn 35 ára gamla fyrirliða sinn sem hann fékk til félagsins sem 14 ára strákpjakk fyrir 21 ári síðan.
Gianfranco Zola, knattspyrnustjóri West Ham, gat heldur ekki leynt aðdáun sinni á Giggs eftir leikinn, þrátt fyrir ósigurinn.
„Ég dáist að Giggs, hann er stórkostlegur leikmaður og þó hann sé í röðum andstæðinganna nýtur maður þess að horfa á hann. Giggs getur spilað í mörg ár enn og það er undir honum sjálfum komið. Þegar ég var á hans aldri vildi ég ekki hætta, heldur vildi ég halda áfram að reyna að bæta mig, og þessvegna gat ég spilað svona lengi. Ég sé að Giggs hefur sama drifkraftinn," sagði Zola við fréttamenn.