Scolari rekinn frá Chelsea

Luiz Felipe Scolari.
Luiz Felipe Scolari. Reuters

Luiz Felipe Scolari var nú síðdegis sagt upp störfum sem knattspyrnustjóri Chelsea. Þetta kemur fram á vef félagsins en Lundúnaliðinu hefur vegnað illa upp á síðkastið og jafntefli gegn nýliðum Hull um liðna helgi var kornið sem fyllti mælinn að mati forráðamanna Chelsea.

Ray Wilkins aðstoðarmaður Scolaris mun taka við stjórn liðsins tímabundið eða þar til nýr knattspyrnustjóri verður ráðinn en Scolari tók við stjórastöðunni hjá Chelsea síðastliðið sumar af Ísraelanum Avram Grant.

Chelsea, sem varð í öðru sæti í úrvalsdeildinni  á síðustu leiktíð og tapaði fyrir Manchester United í úrslitaleik Meistaradeildarinnar, er sem stendur í fjórða sæti deildarinnar. Liðið hefur 49 stig eftir 25 leiki, er 7 stigum á eftir meisturum Manchester United sem tróna á toppi deildarinnar og eiga leik til góða.

Þar með hafa tveir knattspyrnustjórar í ensku úrvalsdeildinni fengið að taka poka sinn í dag en í morgun var Tony Adams sparkað frá störfum hjá Portsmouth.

Luiz Felipe Scolari.
Luiz Felipe Scolari. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert