Roman Abramovich eigandi Chelsea tók þá ákvörðun að reka Luiz Felipe Scolari úr starfi knattspyrnustjóra Chelsea segir talsmaður Scolaris. Brasilíumaðurinn fékk að taka poka sinn eftir dapurt gengi Chelsea-liðsins á síðustu vikum en brottreksturinn kom engu að síður mörgum á óvart.
,,Það lítur allt út fyrir að Abramovich hafi tekið ákvörðunina,“ segir Acaz Fellegger talsmaður Scolari í samtali við dagblaðið Lance. „Scolari var ekki í þægilegri stöðu þrátt fyrir að hafa stuðning leikmanna og framkvæmdastjórans Peter Kenyon. Felipe óskaði eftir því að kaupa Deco og Robinho en félagið keypti bara Deco.“
Scolari segir á vef Fellegger að hann muni fljótlega tjá sig við fjölmiðla en fram að því óski hann Chelsea góð gengis.
,,Ég óska Chelsea góðs gengis í þeim þremur keppnum sem það er í. Ég vil líka nota tækifærið og staðfesta að ég mun búa áfram í London og mun tjá við fjölmiðla fljótlega,“ segir Scolari.