Ashton aftur í uppskurð á ökkla

Dean Ashton hefur verið óheppinn með meiðsli síðan hann kom …
Dean Ashton hefur verið óheppinn með meiðsli síðan hann kom til West Ham. Reuters

Enska Íslendingafélagið West Ham staðfesti í dag að sóknarmaðurinn Dean Ashton hefði verið skorinn upp á ökkla á nýjan leik og þar með er óvíst að hann spili meira á þessu tímabili.

Ashton hefur verið frá keppni síðan í september en hann hafði áður farið í aðgerð á ökklanum sem ekki skilaði tilætluðum árangri. Það má því segja að annað tímabilið af þremur síðustu sé farið í súginn hjá þessum marksækna framherja en hann var frá keppni í heilt tímabil fyrir tveimur árum vegna fótbrots.

„Það voru vonbrigði að þurfa að fara í uppskurð á ný, en það varð ekki hjá því komist og sem betur fór var þetta ekki stórmál. Það var líka uppörvandi að vera með tvo mestu ökklasérfræðingana til staðar þegar aðgerðin var gerð. Nú einbeiti ég mér að endurhæfingunni og mun koma enn sterkari til baka," sagði Ashton á vef West Ham en hann hefur enn ekki náð að spila leik undir stjórn Gianfranco Zola. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert