Rekstrartap Chelsea 65,7 milljónir punda

Roman Abramovich getur nagað á sér neglurnar þessa dagana, enda …
Roman Abramovich getur nagað á sér neglurnar þessa dagana, enda fjárhagsástand Chelsea síst til fyrirmyndar. Reuters

Enska knattspyrnufélagið Chelsea, sem er í eigu Romans Abramovich, tapaði 65,7 milljónum punda á síðasta ári, að því er fram kemur í skýrslu félagsins. Þar af runnu 23,1 milljón punda í bótagreiðslur til José Mourinho og Avram Grant.

Þá er eftir að gera ráð fyrir bótagreiðslum til Luiz Felipe Scolari, sem reiknast á 2009, en þær eru taldar nema 7.5 milljónum punda. 

Samt sem áður hefur tap Chelsea minnkað með hverju árinu frá árinu 2005, en þá tapaði liðið heilum 140 milljónum punda.

í fyrra tapaði félagið 74,8 milljónum punda, en þar á undan nam upphæðin 80.2 milljónum.

„Það er engin spurning að jákvæð þróun veltu og minnkun taps frá ári til árs, sýnir að Chelsea er að byggja upp sterkan viðsktiptagrunn sem byggt verður á til framtíðar. Markmið okkar eru metnaðargjörn, að verða sjálfbærir í rekstri innan 18 mánaða,“ sagði Peter Kenyon, aðal-framkvæmdarstjóri félagsins. Hann sagði einnig að liðið verði ekki styrkt með kaupum næsta sumar, nema aðrir leikmenn verði seldir á móti, kaupstefna sem er ný af nálinni hjá liðinu.

Launakostnaður félagsins hefur þó hækkað frá árinu 2007, úr 132,8 milljónum í 148,5 milljónir punda 2008. Talið er að Roman Abramovich hafi fjárfest fyrir um 710 milljónir punda í félaginu frá árinu 2003, en nú sé krafan um sjálfbærni ströng, enda talið víst að Abramovich hafi fundið harkalega fyrir kreppunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert