Luiz Felipe Scolari, fyrrum stjóri Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, segir í viðtali við tímaritið France Football að Chelsea hafi skort eina aðalstjörnu, og liðið fyrir lélegt form Didier Drogba. Þá segir hann einnig að liðið hafi ekki verið nægilega "brasilískt".
Þess má geta, að viðtalið var tekið fyrir leik Chelsea við Hull City, sem reyndist síðasti leikur liðsins undir stjórn Scolari. Viðtalið birtist þó ekki opinberlega fyrr en í dag.
„Hjá Chelsea höfum við ekki mann sem getur tekið leiki í sínar eigin hendur (fætur). Þeir voru með Arjen Robben, en nú er enginn. Robinho hefði getað verið sá maður, hann er ekki feiminn við að sóla og taka áhættu. Líkt og Brasilíumaður. Lið mitt er ekki nógu brasilískt. Það er skriffinnskulið,“ sagði Scolari.
Hann kvartar einnig undan því að hafa ekki verið með rétta mannskapinn til að leika sitt uppáhalds kerfi, 4-4-2.
„Ég hef ekki þá leikmenn og verð því að aðlaga þá öðru kerfi. Ég hef hinsvegar enga vængmenn heldur. Kalou getur það í 4-3-3, en ekki 4-4-2, því hann verst ekki nógu vel. Og Malouda er ekki sá Malouda sem lék með Lyon. Hann er ágætur, en gerir ekki gæfumuninn lengur,“ sagði Scolari, sem viðurkenndi einnig að samband hans við leikmenn væri ekki jafn gott og þegar hann var þjálfaði landslið Brasilíu og Portúgals.
Orðrómur er uppi um að viðtalið sé ein orsök þess að Scolari hafi verið rekinn, enda er ekki hægt að segja að hann tali fallega um liðið.