Englandsmeistarar Manchester United endurheimta Rio Ferdinand, Patrice Evra og Jonny Evans þegar liðið mætir Derby á Pride Park í ensku bikarkeppninni á sunnudaginn. Wayne Rooney er hins vegar ekki alveg búinn að ná sér af meiðslum og er ólíklegt að Alex Ferguson taki áhættu með því að tefla honum fram í þessum leik.
Ferdinand misssti af landsleiknum gegn Spánverjum í fyrrakvöld vegna veikinda en hann er góðum batavegi. Evra og Evans hafa hrist af sér meiðsli en Evra meiddist í leiknum gegn Chelsea í síðasta mánuði og Evans í deildarbikarleiknum á móti Derby.
Rooney meiddist í leiknum á móti Wigan um miðjan síðasta mánuð en kappinn skoraði eftir tveggja mínútna leik sigurmarkið í leiknum en fór útaf meiddur á 5. mínútu. Rooney er byrjaður að æfa en væntanlega mun hann ekkert koma við sögu á Pride Park á sunnudaginn.