Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Englands- og Evrópumeistara Manchester United, segir að Barcelona verði aðalkeppinautur sinna manna um sigurinn í Meistaradeildinni í ár en keppni í 16 liða úrslitum hennar hefst eftir tæpar tvær vikur.
Ferguson segir að Meistaradeildin sé í forgangi hjá Manchester-liðinu en það er í baráttu á fernum vígstöðvum, ensku úrvalsdeildinni, bikarkeppninni, deildabikarkeppninni og Meistaradeildinni en í desember hömpuðu lærisveinar Fergusons heimsmeistaratitli félagsliða.
,,Við höfum tækifæri á að vinna Englandsmeistaratitilinn í 18. sinn og jafna árangur Liverpool. Að því stefnum við að sjálfsögðu en það er samt ekki í forgangi. Ef þú lítur á árangur okkar í Evrópukeppninni mætti hann vera betri. Engu liði hefur tekist að verja Evrópumeistaratitilinn og það er mikil áskorun fyrir okkur. Vonandi tekst okkur það,“ sagði Ferguson í samtali við enska blaðið Manchester Evening News.
Manchester United etur kappi við Ítalíumeistara Inter í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar en flestir eru á því að Eiður Smári Guðjohnsen og félagar hans í Barcelona hampi Evrópumeistaratitlinum í vor en Börsungar leika gegn frönsku meisturunum í Lyon í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar.
,,Barcelona á allar fyrirsagnirnar á þessari leiktíð enda hefur frammistaða liðsins í spænsku deildinni verið hreint mögnuð. Mín skoðun er sú að Barelona verði okkar aðalkeppinautur um Evrópumeistaratitilinn,“ sagði Ferguson. gummih@mbl.is