Eduardo með tvö í 4:0 sigri Arsenal

Eduardo fagnar eftir að hafa komið Arsenal yfir í leiknum …
Eduardo fagnar eftir að hafa komið Arsenal yfir í leiknum í kvöld. Reuters

Arsenal vann sannfærandi  sigur á Cardiff, 4:0, í 4. umferð ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu á Emirates-leikvanginum í London í kvöld. Eduardo da Silva, króatíski sóknarmaðurinn, lék sinn fyrsta leik í tæpt ár og skoraði tvö markanna.

Arsenal leikur þar með gegn Burnley, liði Jóhannesar Karls Guðjónssonar, í 5. umferðinni en sigurliðið úr þeim leik spilar síðan gegn Sheffield United eða Hull í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar.

Eduardo kom Arsenal yfir á 20. mínútu, í sínum fyrsta leik með liðinu eftir fótbrotið slæma sem hann varð fyrir í febrúar 2009. Eduardo gerði markið með skalla eftir sendingu frá Carlos Vela.

Nicklas Bendtner kom Arsenal í 2:0 á 34. mínútu með skalla eftir hornspyrnu.

Tom Heaton markvörður Cardiff varði hvað eftir annað vel í fyrri hálfleiknum og kom í veg fyrir að munurinn væri meiri þegar flautað var til hálfleiks. Hann hafði líka heppnina með sér á lokamínútu hálfleiksins þegar Bendtner skaut í stöng fyrir galopnu marki.

Eduardo var aftur á ferðinni á 60. mínútu þegar hann var felldur í vítateig Walesbúanna. Vítaspyrna, sem hann skoraði úr sjálfur af öryggi, 3:0.

Robin van Persie kom inná sem varamaður hjá Arsenal og hann skoraði fjórða markið á 89. mínútu eftir að hafa sloppið í gegnum miðja vörn Cardiff, 4:0.

Lið Arsenal: Fabianski - Sagna, Toure, Gallas, Gibbs - Nasri, Denilson, Song, Vela - Eduardo, Bendtner.
Varamenn: Almunia, Van Persie, Ramsey, Wilshere, Clichy, Bischoff.

Lið Cardiff: Heaton, McNaughton, Purse, Johnson, Kennedy, Burke, Rae, Ledley, Parry, Bothroyd, McCormack.
Varamenn: Sak, Capaldi, Whittingham, Johnson, Comminges, Scimeca, Blake.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert