Rússneski billjónamæringurinn Alisher Usmanov, sem er talinn 18. ríkasti maður Rússlands, hefur aukið hlut sinn í Arsenal og á nú rúmlega 25% hlut í félaginu, en 29.9% hlut þarf til þess að lögboðin yfirtaka náist í gegn.
Félag Usmanovs, Red & White Holding, er talið ætla að ná meirihlutanum í félaginu, en Arsenal hefur lengi verið þekkt fyrir að vera rekið sem fjölskyldufyrirtæki, þar sem rótgrónar ættir hafa setið við stjórnvölinn. Nú kveður við annan tón, en ekki eru allir á eitt sáttir við framgöngu Usmanov, sem auðgaðist á námugrefti og timbursölu. Hefur hópur Arsenal aðdáenda mótmælt aðkomu hans að liðinu, en Usmanov sat sex ár í fangelsi á níunda áratugnum, vegna demantasvindls. Félag í hans eigu rekur einnig knattspyrnuliðið Dynamo Moskvu.
Skipting stærstu hluthafa í Arsenal:
Peter Hill-Wood - 0,8%
Richard Carr - 4,4%
Stan Kroenke - 12,4%
Nina Bracewell-Smith - 15,9%
Danny Fizman - 24,1%
Alisher Usmanov - 25% +