Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, var ánægður með lið sitt í stórsigrinum á Cardiff, 4:0, í bikarnum í kvöld, og sérstaklega með góða endurkomu Eduardos sem skoraði tvívegis í fyrsta leik sínum í tæpt ár.
„Við erum að sjálfsögðu allir afar ánægðir fyrir hans hönd en þetta var fyrst og fremst fín frammistaða liðsins, kraftmikil og sannfærandi með þeim mikla hreyfanleika og spili sem við viljum ná fram. Eduardo átti stóran þátt í því og það gleðjast allir fyrir hand hönd í kvöld," sagði Wenger við Sky Sports.
„Hann tók stórt skref í rétta átt fyrir tveimur vikum en þá sáum við skyndilega að hann var orðinn sókndjarfur, kraftmikill og hættur að fara varlega í návígjum. Hann hefur sýnt mikinn andlegan styrk síðasta árið. Ég varð þess aldrei var að hann efaðist um það eina einustu mínútu að kæmi aftur, eða að hann hlífði sér eina einustu mínútu," sagði Wenger.
Eduardo fótbrotnaði í leik gegn Birmingham í febrúar 2008 og í fyrstu var talið að hann myndi aldrei leika knattspyrnu framar.