Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United í ensku úrvalsdeildinni, er ánægður með hinn 35 ára gamla Ryan Giggs, sem líkt og rauðvín verður bara betri með aldrinum, en hann átti enn einn stórleikinn um helgina gegn Derby í ensku bikarkeppninni.
„Hann er að leika sinn besta bolta á ferlinum. Hann er betri núna en fyrir 2-3 árum, því nú er hann mun yfirvegaðri og les leikinn betur. Venjulega eru leikmenn að toppa í kringum 28 eða 29 ára aldur, en dala síðan eftir þrítugt og leggja skóna á hilluna 33 eða 34 ára. En Giggs hefur verið að toppa í nokkur ár núna og er ekki enn byrjaður að dala,“ sagði Ferguson um Giggs, sem hefur leikið 788 leiki fyrir Manchester United.
Hefur frammistaða Giggs með United í vetur vakið athygli margra, og krafa er uppi um að hann verði valinn leikmaður ársins í úrvalsdeildinni, verðlaun sem hann hefur aldrei unnið, ótrúlegt en satt. Hinsvegar var hann valinn bestu ungi leikmaður deildarinnar tvö ár í röð, 1992 og 1993.