Guðjón: Ekki smeykur við breytingar

Guðjón Þórðarson breytti um leikaðferð í kvöld.
Guðjón Þórðarson breytti um leikaðferð í kvöld. www.crewealex.net

Guðjón Þórðarson knattspyrnustjóri Crewe sagði í viðtali við heimasíðu félagsins í kvöld að hann væri afar ánægður með að breytingar sem hann gerði á leikaðferð liðsins fyrir leikinn gegn Southend hefðu skilað mikilvægum útisigri, 1:0.

Guðjón tefldi fram þremur miðvörðum í leikaðferðinni 3-4-3. „Ég ákvað að spila með þrjá miðverði og ég er aldrei smeykur við að gera breytingar. Það hef ég ítrekað gert á mínum ferli og þessvegna er ég í starfi knattspyrnustjóra. Maður verður að vera jákvæður og tilbúinn til að taka ákvarðanir sem stundum vekja spurningar hjá stuðningsmönnum og gagnrýnendum. Við gátum breytt aftur í 4-5-1 þegar með þurfti. Leikmenn Southend áttu í vandræðum með að brjóta okkur á bak aftur og mér fannst þeir vera orðnir hugmyndasnauðir þegar leið á leikinn," sagði Guðjón við heimasíðuna.

„Það var ánægjulegt að ná að vinna á útivelli og gott fyrir leikmennina og stuðningsmenn okkar að sjá að það er vel hægt. Ég hef reynt að innprenta mínum mönnum að hafa meiri trú á sjálfum sér og þeir brugðust vel við því í kvöld. Þetta var fagmannleg frammistaða hjá þeim og við fengum næg tækifæri til að gera endanlega út um leikinn," sagði Guðjón Þórðarson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert