Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, hrósaði Paul Scholes, miðjumanninum reynda, sérstaklega eftir sigurinn á Fulham í kvöld, 3:0. Scholes skoraði fyrsta markið og átti stórgóðan leik.
„Það er alltaf gott að ná að skora snemma á heimavelli því þar með opnaðist leikurinn strax. Við höfum oft séð Scholes skjóta eins og hann gerði þegar hann skoraði fyrsta markið. Mér fannst heildar frammistaða hans í leiknum vera skólabókardæmi fyrir alla unga leikmenn, því hann fór fyrir liðinu, sóttist eftir því að fá boltann í hvert skipti sem við náðum honum, skiptingar hans á milli svæða á vellinum voru stórkostlegar. Hann gaf tóninn í kvöld og úrslitin eru ánægjuleg," sagði Ferguson við Sky Sports.
Wayne Rooney kom inná sem varamaður, eftir fimm vikna fjarveru vegna tognunar í læri, og var fljótur að skora og innsigla sigurinn fyrir United.
„Við tókum enga áhætt með Wayne. Hann fékk smá bakslag fyrir tíu dögum og var stífur í lærinu. Við gátum ekki leyft okkur að taka neina áhættu á þessum tíma vetrar. Ég hefði getað teflt honum fram á sunnudaginn en taldi réttara að bíða í nokkra daga enn og vonaðist eftir því að það gengi upp. Hann verður með gegn Blackburn á laugardaginn og síðan metum við hvort hann spili gegn Inter næsta þriðjudag," sagði Ferguson.