Englandsmeistarar Manchester United og Fulham mætast í frestuðum leik í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Old Trafford í kvöld. Með sigri nær United fimm stiga forskoti á toppi deildarinnar en athygli manna mun beinast að því hvort meistararnir haldi marki sínu hreinu enn einn leikinn.
Edwin van der Sar markvörður United hefur ekki fengið á sig mark í ensku úrvalsdeildinni í 1.212 mínútur eða 20 klukkstundir og 10 mínútur. Hann hefur þegar slegið breskt met en er einum leik og 88 mínútum frá því að bæta Evrópumetið.
United hefur unnið 10 leiki í röð í öllum keppnum og liðið stefnir að því að vinna Fulham í áttunda leiknum í röð en Lundúnaliðið er um miðja deild.
Manchester United endurheimtir Wayne Rooney en hann mun hefja leik á bekknum í kvöld og þá koma þeir Nemanja Vidic, Carlos Tevez, Michael Carrick og Dimitar Berbatov allir inn í hópinn en þeir hvíldu í leiknum gegn Derby um síðustu helgi.