Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United er þekktur fyrir að halda uppi ströngum aga í leikmannahópi sínum og halda leikmönnum á jörðinni. Þessu fékk hinn ungi Danny Welbeck að kynnast í vikunni.
Welbeck skoraði fjórða markið í 4:1 sigri Manchester United á Derby um síðustu helgi en það var fór mjög í skapið á Ferguson hvernig hinn 18 ára gamli framherji fagnaði markinu. Hann gerði það í Eric Cantona stíl, brosti ekki einu sinni út í annað, sýndi lítil svipbrigði en þandi út brjóstkasann eins og Cantona var vanur að gera þegar hann skoraði fyrir United. Ferguson ákvað að refsa Welbeck fyrir uppátækið og sendi hann í varaliðið sem lék gegn Wigan í vikunni.
,,Alex var mjög reiður yfir því hvernig Welbeck fagnaði markinu. Honum fannst leikmaðurinn sýna ákveðinn hroka með þessu. Danny er bara stráklingur og Alex vildi með þessu sýna honum að megi ekki leyfa sér að vera hrokafullur. Þetta er lexía sem margir leikmenn hafa lært undir stjórn Alex á Old Trafford,“ sagði talsmaður Manchester United við enska blaðið The Sun.
Welbeck var ekki í leikmannahópnum gegn Fulham í fyrrakvöld en lék þess í stað með varaliðinu sem sigraði Wigan, 5:4, eftir að hafa verið undir, 4:1. Welbeck skoraði tvö marka United og það gæti tryggt honum sæti í leikmannahópi United sem mætir Blackburn á morgun.