Gary Neville leikmaður Englands- og Evrópumeistara Manchester United hefur framlengt samning sinn við Manchester-liðið fram í júní 2010 og fylgir þar með í fótspor Ryan Giggs sem í síðustu viku gerði nýjan eins árs samning.
Neville, sem varð 34 ára gamall í fyrradag, hefur verið í herbúðum Manchester United í 17 ár en hann lék sinn fyrsta leik með félaginu gegn rússneska liðinu Torpedo Moskva árið 1992.
,,Manchester United er eina félagið sem ég hef viljað spila með svo ég er himinlifandi að hafa skrifað undir nýjan samning,“ segir Neville á vef Manchester United.
,,Gary er sannur atvinnumaður og ég hef hrifist að því hvernig honum hefur tekist að yfirstíga þau erfiðu meiðsli sem hann átti við að glíma. Hann var frá í meira en eitt ár en hefur snúið til baka jafn góður og áður. Hann verðskuldar svo sannarlega að fá nýjan samning,“ segir Sir Alex Ferguson á vef Manchester United.
Neville hefur leikið 565 leiki með Manchester United og hefur í þeim náð að skora 7 mörk.