Jose Mourinho óttast ekki lið United

Mourinho
Mourinho Reuters

Keppni í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu hefst á nýjan leik í kvöld en þá fara fram fyrstu fjórir leikirnir í 16 liða úrslitum keppninnar. Mikil spenna og eftirvænting ríkir meðal knattspyrnuáhugamanna enda verður boðið upp á hvern stórleikinn á fætur öðrum en leikir kvöldins eru: Inter - Man Utd, Arsenal - Roma, Lyon - Barcelona og Atletico Madrid - Porto.

Þó svo að leikir kvöldsins flokkist allir undir að vera stórleikir ríkir mesta spennan um viðureign Ítalíumeistara Inter og Englands- og Evrópumeistara Manchester United sem eigast við á San Síró í Mílanó.

,,Ég held að Manchester United mæti ekki á San Síró til að reyna að vinna. Ég býst við að United leggi ofurkapp á varnarleikinn,“ sagði Jose Mourinho, þjálfari Inter, við fréttamenn í gær en Mourinho státar af frábærum árangri gegn United. Hann hafði betur í baráttunni við Sir Alex Ferguson um Englandsmeistaratitilinn 2005 og 2006 en þá var hann við stjórnvölinn hjá Chelsea. Þá stýrði hann liði Porto sem sló United út í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar árið 2004 og hann fór alla leið með Porto-liðið í keppninni það ár. Í 12 leikjum sem Mourinho hefur mætt United hefur hann unnið sex leiki, gert fimm jafntefli en aðeins tapað einu sinni. ,,Mínir menn þurfa ekkert að óttast United. Ég held að við verðum í úrslitum í keppninni eftir nokkra mánuði. Við komum ekki til með að breyta neinu í okkar leikskipulagi. Við spilum 4:4:2 með Ibrahimovic og Adriano í fremstu víglínu. Við mætum frábæru liði en það gerir United líka,“ sagði Mourinho.

Inter í toppformi segir Ferguson

Sir Alex er áhyggjufullur þar sem meiðsli herja á varnarmenn liðsins auk þess sem Nemanja Vidic tekur út leikbann. Wes Brown og Gary Neville fóru ekki til Mílanó og Jonny Evans er tæpur.

,,Að mæta Inter á San Síró verður mikill prófsteinn á okkar lið. Lið Inter er í góðu formi og er í toppsætinu á Ítalíu svo við verðum að hafa verulega fyrir hlutunum. Liðin eru bæði í hópi fjögurra til fimm bestu liðanna í Evrópu um þessar mundir og þú þarft að vinna þá bestu til að komast alla leið,“ sagði Sir Alex.

Eiður Smári og félagar hans í Barcelona etja kappi við franska meistaraliðið Lyon á útivelli og verður fróðlegt að sjá hvernig Börsungar bregðast við eftir tapið gegn Espanyol um nýliðna helgi.

Höfum engu að tapa gegn Barcelona

,,Þetta verður mjög erfitt en við eigum möguleika á að ná hagstæðum úrslitum. Staðreyndin er sú að við höfum engu að tapa gegn Barcelona. Það er ekki spurning að Barcelona er stærri klúbbur en Lyon og okkar markmið er að komast á þeirra stig og til þess þurfum við að mæta liði af þessum styrkleika,“ sagði varnarmaðurinn Jean-Alain Boumsong.

Wenger bjartsýnn

Á Emirates Stadium tekur Arsenal á móti Roma og þar má reikna með hörkurimmu. ,,Ég trúi því að við séum með nógu gott lið til að leggja Roma að velli. En í Meistaradeildinni þá veistu að á þessu stigi getur dagsformið ráðið úrslitum. Okkur hefur ekki gengið sem skyldi í deildinni en við lítum svo á að við eigum gott tækifæri til að sýna hvað í liðinu býr í Meistaradeildinni,“ sagði Arsene Wenger.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert