Liverpool skellti Real Madrid - Naumur sigur Chelsea gegn Juventus

Dirk Kuyt og Sergio Ramos í baráttunni í Madrid í …
Dirk Kuyt og Sergio Ramos í baráttunni í Madrid í kvöld. Reuters

Liverpool og Chelsea fögnuðu bæði sigrum í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í kvöld. Liverpool vann góðan sigur á níföldum Evrópumeisturum Real Madrid, 1:0, og á Stamford Bridge hafði Chelsea betur gegn Juventus, 1:0.

Ísraelsmaðurinn Yossi Benayoun tryggði Liverpool magnaðan sigur á Spánarmeisturunum á Santiago Bernabeu með skallamarki 10 mínútum fyrir leikslok eftir aukaspyrnu frá Fabio Aurelio.

Liverpool lék af mikill skynsemi allan tímann og komust leikmenn Real Madrid lítt áleiðis gegn vel skipulögðu liði Liverpool sem eftir þennan frábæra sigur stendur ákaflega vel að vígi.

Didier Drogba skoraði eina mark leiksins þegar Chelsea sigraði Juventus, 1:0, á Stamford Bridge. Markið kom á 12. mínútu eftir sendingu frá Salomon Kalou. Liðsmenn Juventus bitu vel frá sér og áttu nokkrar hættulegar sóknir en allt kom fyrir ekki.

Bayern München fór gjörsamlega á kostum gegn Sporting Lissabon en 5:0 urðu úrslitin í Portúgal þar sem Franck Ribery og Luca Toni gerðu tvö mörk hvor og Miroslav Klose eitt.

Villareal og Panahinaikos skildu jöfn á Spáni. Karakounis kom gestunum yfir en Giuseppe Rossi jafnaði metin úr vítaspyrnu fyrir Villareal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert