José Mourinho, knattspyrnustjóri Inter, var ekki sáttur við störf spænska dómarans Luis Medina Cantalejo í gær, í viðureign liðsins gegn Manchester United í Meistaradeildinni. Gekk hann til búningsherbergis án þess að taka í hönd Sir Alex Ferguson, líkt og venja er.
„Dómarinn var mér ekki að skapi, en ég vil ekki fara út í smáatriði. En ef við fáum slíkan dómara í útileiknum á Old Trafford, væri það frábært,“ sagði kaldhæðinn Mourinho eftir leik.
Það vakti eftirtekt að Mourinho heilsaði ekki Sir Alex eftir leikinn, eins og venja er, heldur hvarf beint til búningsherbergisins, en þeir þykja jafnan hinir mestu mátar, innan vallar sem utan og skála jafnan í rauðvíni þegar þess gefst kostur.
„Varamannskýlið okkar er með hurð beint til búningsherbergisins, sem ég nýtti mér. Í fyrradag sendi ég rauðvínsflösku til Ferguson ásamt orðsendingu sem sagði að við myndum hittast eftir leikinn á Old Trafford. Við verðum alltaf nánir og ég verð til staðar í seinni leiknum,“ sagði Mourinho, augljóslega hundsvekktur með markalaust jafntefli.